Annað árið í röð tók ég að mér kennslu á þriggja vikna verklegu námskeiði við Hugbúnaðarverkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Námskeiðið,  "Hugbúnaðarferlar og verkefnastjórn", hefur það markmið að undirbúa nemendur fyrir þann mikilvæga hluta vinnunnar sem snýr að skipulagi og framkvæmd hugbúnaðarverkefna.

Einn nemandi með tæplega tíu ára reynslu úr atvinnulífinu og hafði eftirfarandi að segja um námskeiðið:

Ég valdi þetta námskeið þó svo að ég hafi notað agile og scrum áður og sé ekki eftir því, ég lærði heilmikið. Ég mun klárlega innleiða þessar aðferðir á mínum vinnustað.

En hvernig var námskeiðið keyrt?

Unnið var raunverulegt verkefni í gegnum námskeiðið þar sem nemendur fengu að beita þeim aðferðum sem kennslan snerist um. Námskeiðið byrjaði á ákveðnum grunni í verkefnastjórn, samanber bókin Software Project Management eftir Bob Huges. Síðan var farið á dýptina í Agile aðferðir, samanber bækurnar User Story Mapping eftir Jeff Patton og Agile Estimating and planning eftir Mike Cohn.

Vika 1 - Verkefni námskeiðsins kynnt + Verkefnastriginn

Í fyrsta fyrirlestri fengu nemendur að kynnast Finni framkvæmdastjóra og hans teymi hjá pitsa.is sem verkefni námskeiðsins snerist um (e. case study). Nemendur fengu að heyra af ýmsum áskorunum sem Finnur og hans teymi glíma við í veitingarekstri á þessum tímum. Í fyrstu viku var verkefni nemenda að ramma inn vinnuna með hjálp verkefnastrigans þar sem þau:

  1. Skilgreindu notendur lausnarinnar og lykilhagsmunaðila
  2. Skilgreindu viðskiptaleg áhrif og markmið verkefnisins
  3. Gerðu grófa tímaáætlun, lögðu mat á kostnað og framkvæmdu hagkvæmnisathugun

Vika 2 - Saga notenda

Önnur vika námskeiðsins byrjaði á vinnustofu þar sem nemendur unnu saman og kortlögðu morgun-rútínu dagsins og lærðu um leið að teikna upp sögu notenda (e. user story map) í anda Jeff Patton. Verkefni annarar viku snerist einmitt um að kortleggja sögu notenda og auðkenna mögulegar leiðir til að ná markmiðum verkefnisins með skilvirkum hætti. Ennfremur skilgreindu nemendur gróft fyrstu tvær útgáfur lausnarinnar, ásamt því að leggja mat umfang og tímaramma af meiri nákvæmni.

Ennfremur ræddum við aðeins hvernig mörg fyrirtæki beita "Agile" en fara í raun á mis við megin virði Agile aðferða. Með því að nota Agile aðferðir aðeins við vinnu þróunarteymanna, vantar nokkuð upp á að teymin séu að vinna að lausnum sem skila hvað mestum viðskiptalegum áhrifum sem máli skipta.

Vika 3 - Fyrsti spretturinn

Í þriðju viku unnu nemendur sögulista fyrir verkefnið (e. backlog). Lögðu nákvæmara mat á heildarumfang vinnunar, auðkenndu áhættu, skipulögðu fyrsta sprettinn og settu upp vinnu verkefnisins í anda Agile fræðanna. Hérna er skjáskot úr Jira sem sýnir dæmi um sögulista og niðurbrot verkefnisins sem hóparnir unnu í síðasta verkefni námskeiðsins.

Nemendum fannst spennandi að fá innsýn inn í og heyra dæmi af raunverulegum verkefnum og voru almennt spennt fyrir efni og verkefnum námskeiðsins.

Kannski hjálpaði áhugi kennarans á námsefninu örlítið ;)